18.5.2018 | 08:48
Hvar á að æfa líkamsrækt í Venice, Los Angeles
Nýlega ferðaðist ég til Los Angeles í 5 vikur í hrákokkanám hjá Plantlab. Skólinn er staðsettur í hjarta Venice og í göngufjarlægð frá ströndinni, sem var algjör lúxus. Samhliða skokki eða hjólatúrum á ströndinni fannst mér auðvitað nauðsynlegt að æfa og eru þetta uppáhalds staðirnir mínir til að taka vel á því.
YogaWorks
Ég keypti mánaðarkort hjá Yogaworks og bjóða þau upp á bæði hæga og hraða yoga-flæðis tíma, Sculpt og TRX tíma. Mismunandi eftir hverri stöð. Stöðin í Hollywood bíður t.d. uppá fleiri tíma í Sculpt þar sem áhersla er lögð á líkamstónun enda eflaust eitthvað sem stjörnunum líkar vel við. Mánuðurinn kostaði $139 en einnig er hægt að koma í staka tíma eða kaupa viku eða tveggja vikna passa.
Hot 8 Yoga
Ef þú ert vön/vanur hot yoga á Íslandi gætu tímarnir í Hot 8 Yoga þó reynst áskorun enda hef ég aldrei farið í eins heita tíma á ævinni og tekur kennarinn vel á því með þér. Þau bjóða uppá poweryoga, barre tíma sem og sígilda hot yoga tíma. Stakur tími kostar $25 og mánuðurinn c.a. $160-180.
The Dailey Method
The Dailey Method er Barre líkamsrækt við stöng, bolta og létt lóð og æfingarnar tóna fínu vöðva líkamans. Ég er mjög hrifin af barre þjálfun enda henta æfingarnar mér vel þar sem ég var dansari hér áður. Ég komst því miður ekki í að prófa þessa stöð í þetta skiptið en vinkona mín fór þó í Dailey Method nokkrum sinnum í viku og elskaði tímana alveg hreint.
Pilates hjá Studio MDR
Ef þú ert á heimavelli í Pilates þá munu tímarnir hérna henta þér vel. Það má líka alltaf fara í prufutíma og sjá hvernig er. Kennarinn tekur vel á því og notað er alla vöðva líkamans á bekknum til að ná fram sterkum kvið og tónuðum líkama. Hér eru ófáar með six-pack þegar litið er yfir salinn.
F45
Ef þú ert hrifin af HIIT (High intensity interval training eða lotuþjálfun) og/eða Crossfit mun F45 henta þér vel. Þar er æft í 45 mín í senn og tekið vel á því með og án lóða/ketilbjalla. Mánuður hjá þeim kostar c.a. $140 en einnig er hægt að koma í staka tíma. Sjálf æfi ég HIIT þjálfun samhliða Barre og flæðistímum því ég sækist gjarnan í fjölbreytni í hreyfingu einsog flestu öðru í lífinu reyndar.
Fyrir þá sem vilja líka fjölbreytni og fá að prófa hitt og þetta eða eru að ferðast í stuttan tíma til Los Angeles að þá mæli ég með að skoða ClassPass en þar er hægt að borga $15 á mánuði og sækja tíma hjá mörgum stöðvum eins og The Daily Method og Pilates og þó nokkra tíma hjá YogaWorks. Einnig eru auðvitað nóg af hefðbundnum líkamsræktarstöðvum í boði í LA einsog t.d. LA Fitness og hin fornfræga Golds Gym sem Arnold Schwarzenegger og fleiri kappar æfðu í af krafti hér áður.
Heilsa og hamingja,
Júlía
Fáðu ókeypis matarskipulag mitt hér
Hægt er að fylgjast með mér betur á Facebook og Instagram
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.