Vegan veitingastaðir Hollywood stjarnanna

IMG-1740Vegan lífsstíll er mjög vinsæll í Los Angeles og úrvalið af vegan veitingastöðum og heilsuvörum er eftir því.

 

Ég er nýlega komin heim eftir rúmlega mánaðardvöl úti þar sem ég tók framhaldstig í hráfæðiskokkinum hjá Plantlab. Sem mikill matgæðingur fann ég mig knúna til að prófa helstu staðina og hitti á nokkur fræg andlit í kjölfarið. Deili ég hér uppáhalds veitingastöðum mínum í Los Angeles (þá helst í West Hollywood og Venice)

Crossroads í Hollywood

Ef þú vilt hitta á fræga fólkið er þetta staðurinn til að fara á. Í eina skiptið sem ég hef farið hitti ég tónlistarmanninn Usher og Dee Snider úr Twisted sister(sem ég verð nú að viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um hver var, en það gerði maðurinn minn hins vegar). Staðurinn er 100% vegan og býður upp á virkilega góðan mat. Skammtarnir eru litlir en fallega framsettir enda hefur Tal Ronnen kokkurinn þar fengið á sig gott nafn í L.A. og t.d. eldað með Ellen í sjónvarpsþætti hennar. Þú vilt koma klædd/ur í fínni kantinum þar sem L.A. búar eiga það til að gera svo á þessum stað. Þrátt fyrir að vera veitingastaður í fínni kantinum er matseðillinn á viðráðanlegu verði og forréttir frá 12-14 dollurum og aðalréttir frá $22 og upp úr.

 

Gracias Madre í Hollywood

Uppáhalds staðurinn minn fyrir vegan mexíkóskan mat. Þetta er klárlega staðurinn til að fara á með vinum og vandamönnum enda ofboðslega hipp og flott stemning þarna inni. Hér hitti ég m.a. Chloe Moretz leikkonu og Brooklyn Beckham. Hægt er að sitja bæði inni eða úti. Skammtarnir hér eru stórir og því pöntum við hjónin oft nokkra forrétti eða forrétt og aðalrétt til að deila. Það er svo margt á matseðlinum sem manni langar að prófa að ég mæli með að byrja á “tasting menu” þeirra. Í uppáhaldi hjá mér er blómkálið og quesadilla af forréttarmatseðlinum. Staðurinn er einnig fullkomin fyrir þá sem eru með glútenóþol þar sem þau nota maísbökur eins og Mexíkanar gera mikið. Maturinn er frá $12-20 sem er ekki slæmt.

 

Sage (fleiri en ein staðsetning)

Sage er annar 100% vegan veitingastaður og er á nokkrum stöðum. Þau bjóða uppá morgunverð og brunch þ.á.m. bláberjapönnukökur og glútenlausar sætkartöflupönnukökur sem og acai skálar og fleira. Einnnig eru þau með frábærar pizzur sem þau gera frá grunni, með valmöguleika um glútenlausa pizzu úr bókhveiti sem er hrikalega góð. Ef þú vilt eitthvað sætt í eftirrétt eru þau með úrval af vegan ís (sætað með agave) og kökum. Verðin eru sanngjörn eða frá $8-20 fyrir réttinn.

 

M Cafe í Hollywood

Ayurvedic veitingastaður og því ekki 100% vegan þar sem þau bjóða m.a. upp á egg og fisk. Þau eru þó með mjög marga vegan kosti og nota ekki unninn sykur og hægt að fá margt hjá þeim glútenlaust. Vegan borgarinn þeirra er alveg klikkaður og kem ég aftur ár eftir ár til að fá súkkulaðikökuna þeirra sem er ‘to die for’ en hún er 100% vegan og glútenlaus! Sanngjörn verð.



Plant Food and Wine í Venice

Veitingastaður Matthew Kenney fyrrum eiganda Plantlab, hráfæðiskólans sem ég sótti. Staðurinn er algjör skylda að fara á ef þú ert í Venice og býður upp á hráfæðisrétti í bland við eldaða rétti. Þetta er 100% vegan staður og allt gott sem er þarna. Ef þú ætlar að fá þér vín gæti reikningurinn hækkað hratt en annars er matseðillinn á viðráðanlegu verði.



Cafe Gratitude (fleiri en ein staðsetning)

100% vegan veitingastaður sem er alltaf opin fyrir morgunverð, brunch, hádegisverð eða kvöldmat. Tacoið þeirra og borgari eru algjört æði og efast ég ekki um restina af matseðlinum. Góð þjónusta, góður matur og desertar og góð verð. Hvað er hægt að biðja um meira í vegan lífinu?



Dune við Venice Beach.

Ef þú ert hrifin/n af Miðjarðarhafs (mediterranean) mat eða ísraelskum mat, sem einkennist oft af falafel bollum, pítum og hummus, þá munt þú elska Dune. Ofboðslega afslappaður staður og mikill matur fyrir peninginn. Dune hefur einnig fengið þó nokkrar viðurkenningar fyrir avókadó ristaða brauðið þeirra sem á að vera hrikalega gott (ég smakkaði það reyndar ekki).



Tocaya Organica (fleiri en ein staðsetning)

Í Bandaríkjunum er hefð fyrir ‘Taco Tuesday’ eða ‘Tacó þriðjudegi’ á mexíkóskum veitingastöðum, þá bjóðast þér tacos á djók verði og ekki vitlaust að kíkja á þennan stað á sólríkum þriðjudegi. Tocaya er lífrænn veitingastaður með mikið af vegan valkostum í boði. Ég mæli auðvitað með að fá þér taco eða burrito hérna og mitt uppáhald er guacamole-ið þeirra með bananaflögum! Hægt er að fá máltíð með öllu á innan við $15.

 

Heilsa og hamingja,

Júlía Heilsumarkþjálfi

Fáðu ókeypis matarskipulag mitt hér!

 

Hægt er að fylgjast með mér betur hér á Instagram og Facebook

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband