11 ráð fyrir holl og ódýr matarinnkaup

Ég er oft spurð að því hvort heilbrigður lífsstíll sé ekki dýr.

Hann getur vissulega verið það, en hann þarf ekki að vera það endilega.

Í gegnum árin hef ég komið mér upp allskyns ráðum til þess að halda í hollustuna á kosntaðarvænan hátt og deili ég þeim hér í dag. 

 

Kauptu egg beint frá býli

Það að versla egg beint frá býli getur bæði verið hollari og hagkvæmari kostur, sérstaklega ef þú kaupir mikið af eggjum inn á heimilið. Egg beint frá býli eru yfirleitt ferskari því það er styttra síðan þeim var verpt, þar af leiðandi bragðast þau betur!

Eldaðu baunir sjálf/ur

Frábært dæmi um hagkvæma og heilsusamlega ákvörðun er að velja þurrar baunir fram yfir foreldaðar baunir.  Þó að niðursoðnar baunir bjóði upp á þægindi þá eru þær mun dýrari kostur. Með því að kaupa þurrar baunir í lausu og elda þær heima sparar þú ekki bara pening heldur tryggir einnig að þú fáir næringarríkari valkost, sem er auðveldara að melta, án óþarfa aukaefna.

Takmarkaðu tilbúin matvæli

Eitt af því sem hækkar matarinnkaupin ört er að kaupa allskonar tilbúna hluti eins og orkustykki, sósur, jógúrtdrykki, millimál, sósur og máltíðir. Að auki eru þessar afurðir oft fullar af óþarfa syrki. Það gæti komið þér á óvart hvað það er auðvelt og í raun fljótlegt að gera þetta frá grunni. 

Gefðu þér tíma í að skipuleggja

Lengi vel hef ég átt þá reglu að skipuleggja vikuna á sunnudögum, þá gef ég mér klukkustund í eldhúsinu til að undirbúa nokkur lykilatriði fyrir vikuna. Þetta tryggir bæði það að þegar ég á annríkt er eitthvað hollt til og á sama tíma tryggir þetta að ég forðist ráðið hér að ofan “að kaupa óþarfa tilbúin matvæli” og borði frekar heima.

Hér má sækja sýnishorn af sunnudags matarskipulagi mínu með uppskriftum og hugmyndum. 

Frystu máltíðir

Þú lendir e.t.v. í því í miðri viku að "nenna ekki" að elda, það kemur fyrir flesta. Þá getur verið ofboðslega gott að hafa eitthvað tilbúið í fyrsti sem er hægt að taka út. Þetta er algjört leynivopn fyrir fjármálin ef þú gerir þetta að vana.  Einnig dregur þetta úr freistingum til að panta pizzu eða annan skyndibita.

Verslaðu eftir vertíð

Að versla grænmeti sem er í vertíð er góð leið til þess að spara, en á sama tíma gefur það líkamanum fjölbreytta og oft á tíðum akkúrat þá næringu sem hann þarfnast hverju sinni.

Verslaðu vörumerki búðarinnar

Verslaðu vörumerki sem búðin býður upp á eins og t.d chia fræ frá bónus merkinu, hnetur frá h-berg og fleira. Oftast er það ódýrasti kosturinn vegna þess að það hefur minni álagningu. 
Þó svo að lífrænt sé besti kosturinn er það ekki alltaf í boði, veldu því hvað þú vilt kaupa lífrænt og hvað þú kaupir hefðbundið

Gerðu vikuseðill

Það er alltaf gott að hafa gott skipulag, en það er einstaklega gott ef þú vilt spara pening. Með því að hafa matseðil og innkaupalista fyrir alla vikuna eins og ég gef í námskeiðum mínum, forðast þú kostnaðarsamar snatt ferðir út í búð og skyndibita því þú veist ekki hvað á að vera í matinn.

Notaðu innkaupalista

Þegar þú ert búin að gera þér vikuseðill skaltu rissa upp lista. Margir sem ég þekki hafa innkaupalista skriflegan og er þá blokk inní eldhúsi sem er hægt að bæta í. Ég sjálf nota forritið "notes" sem er í Iphone til þess að setja inn af og til það sem vantar þegar ég man eftir því. Notes forritið er í tölvunni og símanum svo ég get bætt eða tekið út hluti hvenær sem er. 

Finndu það sem virkar fyrir þig og haltu þig við það, að hafa lista hjálpar okkur að fækka búðarferðum sem snýr að næsta ráði.

Láttu eina vikulega búðarferð duga

Gerðu matarinnkaupin einu sinni í viku og láttu það duga út vikuna. Þetta neyðir þig til þess að vera hugmyndarík/ur með þann mat sem er til heima sem oft á tíðum smakkast betur en þú heldur. Þetta eina ráð má vel vera eitt mikilvægasta ráðið hér og það sem getur skipt hvað mestu fyrir þig.

Vertu með fjárhagsáætlun

Að hafa fjárhagsáætlun yfir mánuðinn og fylgja henni eftir er líklega það mikilvægasta sem þú getur gert til þess að spara og fyrirbyggja að þú sprengir matarreikninginn. Þar sem þetta viðfangsefni er umfangsmikið, mun ég setja saman grein um það í komandi vikum.

Heilsa og hamingja, 
Júlía Heilsumarkþjálfi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband