18.8.2021 | 15:39
Ráð til að efla meltingu eftir sumarfrí
Slæm melting og bólgur (innflammations) orsakast oft vegna röskunar á rútínu okkar og mataræði. Slíkt á til að hægja á brennslunni og starfsemi allra líffæra sem getur valdið sýkingum, þyngdarstöðnun, orkuleysi og ýmsum kvillum.
Grunnstoð heilsunnar er heilbrigð melting. Meltingin spilar lykilhlutverk í að líffærastarfsemi okkar sé virk og að líkaminn vinni rétt úr fæðunni. Meltingarflóran spilar einnig stórt hlutverk í styrkingu ónæmiskerfisins þar sem það býr að stórum hluta í meltingarfærunum. Tenging er á milli meltingarflórunnar og heilastarfsemi okkar og því slæm melting oft afleiðing andlegrar depurðar eða öfugt.
Með því að efla meltinguna stuðlum við að meiri orku, virkari brennslu og bættri andlegri líðan.
Elskaðu góðu bakteríurnar
Þarmaflóran þarfnast góðra meltingargerla fyrir virka starfsemi. Mitt helsta ráð þegar kemur að meltingagerlum er að gefa líkamanum fjölbreytt úrval gerla fyrir sem bestan árangur. Mér finnst gott að rótera eftir tegundum gerla sem ég nota hverju sinni og oft á ég til 2-3 mismunandi tegundir gerla heima sem ég skipti á milli daga. Góðar bakteríur finnast einnig í ýmsum fæðum eins og sýrðu grænmeti, gerjuðum jógúrtum og kombucha drykkjum. Gott er að neyta þessara fæðutegunda allt að þrisvar í viku eða oftar.
Skiptu út bólgumyndandi fitum og olíum
Holl fita skiptir gríðarlegu máli fyrir virka meltingarstarfsemi þar sem hún hjálpar til við upptöku og geymslu næringarefna. Holl fita heldur einnig heilastarfsemi og brennslu í lagi og getur dregið úr bólgum í meltingarfærum. Það er liðin tíð að telja að hollar fitur stuðli að þyngdaraukningu enda hefur verið sannað að þær geta þvert á móti stuðlað að þyngdartapi sem og almennri vellíðan. Mikilvægt er þó að velja réttu olíurnar. Olíur frá soja, maís og dýraafurðum geta verið erfiðar fyrir meltinguna. Skiptið þeim út fyrir kaldpressaðar olíur, eða með því að borða fisk, hemp- og hörfræ, kókos-, avókadó- og ólífuolíur. Fæðutegundir sem eru sérstaklega ríkar af hollri fitu eins og hnetur, möndlur, fiskur, kókos og fræ, hjálpa einnig við að efla meltingu og brennslu.
Minnkaðu sykurinn
Aldrei er góð vísa of oft kveðin! Hvítur sykur getur myndað meltingarkvilla og bólgur í meltingarvegi. Minnkaðu sykur í mataræðinu með því að skipta út sykruðum drykkjum fyrir sódavatn eða vatn. Temdu þér að lesa á innihaldslýsingar svo þú sért ekki að innbyrða sykur að óþörfu og forðastu að kaupa sykraðar mjólkurvörur eða aðrar vörur sem innihalda viðbættan sykur. Veldu frekar náttúrulega sætugjafa eins og döðlur, stevíu, hlynsíróp, hunang eða kókospálmanektar sem fara mun betur í meltinguna.
Svitnaðu streituna burtu
Streita hefur bein tengsl við upptöku næringarefna og meltingu. Því er mikilvægt að halda streitu í skrefjum fyrir heilbrigða meltingu. Hreyfing er tilvalin þar sem hún dreifir huganum og kemur okkur aftur niður á jörðina. Rannsóknir hafa sýnt mikilvægi þess að hafa jafnvægi á æfingunum enda getur of áköf líkamsþjálfun haft skaðleg áhrif, t.d. á nýrnahetturnar, hægt á brennslunni og valdið streitu. Hugaðu því að jóga, göngum eða öðrum rólegri æfingum samhliða ákafari æfingum sem hækka púlsinn.
Hreinsaðu líkamann
Meltingarvegurinn fyllist af eiturefnum eftir óheilbrigt líferni, slæmt mataræði, streitu, áföll eða sýklalyf. Hreinsun með fæðu getur því verið mjög áhrifarík og góð, en ef hún er ekki gerð rétt eða í hófi geta áhrifin verið skaðleg. Það er mikilvægt að fara rétt að og fylgja góðri hreinsunaráætlun. Sem heilsumarkþjálfi mæli ég alltaf með að hefja stutta hreinsun til að losna við löngun í sykur og óhollustu, koma meltingunni af stað, auka orkuna og undirbúa líkamann þeirra fyrir lífsstílsbreytingu!
Til að koma þér af stað í hreinsandi mataræðinu er gott að huga að því að bæta við góðum trefjum, t.d. frá chia- og hörfræjum, döðlum og þurrkuðum ávöxtum.
Athugasemdir
Hið rétta er að slæm melting og bólgur (innflammations) orsakast nær aldrei vegna röskunar á rútínu okkar og mataræði. Slíkt, röskun á rútínu okkar og mataræði, hægir aldrei á brennslunni og starfsemi allra líffæra og getur ekki valdið sýkingum, þyngdarstöðnun, orkuleysi og ýmsum kvillum.
Hvítur sykur getur ekki myndað meltingarkvilla og bólgur í meltingarvegi. Hvítur sykur er einfaldlega hrein orka án allra næringarefna og hefur engin áhrif á meltinguna. Hvítur sykur er sama efnið og sykurinn í döðlum, hlynsírópi, eplum eða hunangi.
Það er ekki liðin tíð að telja að hollar fitur stuðli að þyngdaraukningu. Það er ennþá staðreynd, þrátt fyrir auglýsingar söluaðila. Enda hefur verið sannað að þær innihalda engu færri hitaeiningar og setjast auðveldlega fyrir í líkamanum, með tilheyrandi þyngdaraukningu, engu síður en óhollari fita. Óhollar fitur eru óhollar vegna þess að þær stuðla frekar að því að æðar þrengist og stíflist. Óhollustan tengist þyngdaraukningu ekkert. Enginn munur er á þyngdaraukningarhæfni hollrar og óhollrar fitu.
Þarmaflóran þarfnast góðra meltingargerla. En sé fólk ekki á lyfjum eða í mikilli áfengisdrykkju sem skaðar gerlaflóruna er engin ástæða til að dæla í sig gerlum. Þeir fjölga sér eftir þörfum og þurfa engin afskipti.
Meltingarvegurinn fyllist ekki af eiturefnum eftir óheilbrigt líferni, slæmt mataræði, streitu, áföll eða sýklalyf. Eiturefnamýtan er þvæla sem aldrei hefur tekist að sanna, en hið gagnstæða hefur oft verið sannað.
Heilsumarkþjálfi er menntunarlaus manneskja sem sækir sér fróðleik til fáráðlinga og sölumanna fæðubótarefna, sem flest öll eru gagnslaus. Ráðleggingar þeirra byggja á gervivísindum og fáfræði. Allir geta titlað sig heilsumarkþjálfa, þekkingar og menntunar er ekki krafist. Það sama á við um vottaða markþjálfa, næringarráðgjafa og lífsstílsráðgjafa.
Vagn (IP-tala skráð) 18.8.2021 kl. 23:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.